Styrkleikar, auðlindir, markaðsbreytur Íslands og tillögur

Helstu auðlindir landsins eru gjöful fiskimið, náttúran og fallvötn og jarðvarmi sem eru ávísun á ódýra orku fyrir stóriðju, fyrirtæki og heimili. Þessar auðlindir eru „náttúrunnar“ gæði en ekki misvitra stjórnmálamanna. Engin önnur þjóð í Vestur-Evrópu á sambærilegar auðlindir hvað varðar fiskimið og orku. Fólkið er svo einnig mikil auðlind. Varðandi ferðamenn er náttúran dýrmætasta auðlindin og stærsti áhrifavaldurinn fyrir komu þeirra til landsins. Kannanir meðal ferðamanna sem Rannsóknir og ráðgjöf í ferðaþjónustu framkvæma í Leifsstöð og nú nýlega niðurstöður rýnihóps hjá Höfuðborgarstofu og NETIÐ í gegnum tíðina o.fl. sýna einnig að ferðamenn eru mjög og í vaxandi mæli hrifnir af fólkinu svo sem hjálpsemi þess, enskukunnáttu og kraftinum. Slíkt er mjög dýrmætt, enda spyrst það út, sem góð auglýsing fyrir landið. Það er því ekki að ástæðulausi sem að um 98% segjast myndu mæla með Íslandi og Reykjavík. Ferðaþjónustan er orðin sú atvinnugrein sem dregur mest í búið af gjaldeyristekjum eftir að hafa farið frammúr sjávarútveg á síðasta ári. Vel sundurliðaðan heildarfjölda ferðamanna sem voru 914 þús. alls árið 2013 o.fl. má sjá á síðu ráðgjafafyrirtækis okkar, netid.is. Jákvæðar fréttir af ferðaþjónustu, svo sem um metfjölda og slíkt eru mikið blásnar upp af fjölmiðlum án þess að kafað sé dýpra og því eru margir sem hugsa sér að ná bita af þeirri gómsætu köku. Má sums staðar, að mati undirritaðs og fleiri, óneitanlega finna fyrir gullgrafaæði í greininni. Þegar betur er skoðað og rýnt í tölurnar um hana eru vinnulaun almennt frekar lág, vinnutími (of) langur, og framlegð og framleiðni eru einnig ábótavant. Hér eru auðvitað undanskildir margir aðilar, einkum stórir, svo sem Icelandair, Bláa Lónið, sumar stærri hótelkeðjur og fleiri. Þeir fjórir þættir sem undirritaður telur styrkustu stoðirnar eða markaðsbreyturnar í ferðaþjónustunni og aðgreina Ísland eru í grófur dráttum eftirtaldar:

1. Náttúran – Landið hefur ímynd hreinnar og öðruvísi náttúru. Hér er meðtalið jarðvarminn og heita vatnið. Margir þættir hafa mikið aðdráttarafl og draga fólk til landsins eins og seglar, þar má nefna fjöll, fossar, heitar laugar, jöklar, Bláa lónið og norðurljósin í síauknum mæli og fl. fl. Ágangur ferðamanna bæði innlendra og erlendra er hins vegar mikil á helstu náttúruperlurnar og má sem dæmi nefna nærumhverfi okkar tilkomumiklu fossa.
2. Hreinleiki – Mikilvægt er að hafa hreinleika í náttúrunnar sem fyrirmynd. Víða er pottur þó brotinn og alltof mikið rusl er sjáanlegt víða í höfuðborginni og um landið. Þar hefur það aukist mikið samfara auknum fjölda ferðamanna. Eftir ferðalög mín og annara starfsmanna til fjölda landa og borga erlendis (47 lönd alls, ferðasögur og myndir frá nokkrum stöðum eru m.a. á visitorsguide.dk) má telja upp fjölda staða þar sem sjáanleg snyrtimennska er mun meiri. Hér má nefna Stokkhólm, Osló, Dublin, víða í Flórída, Dubai og Antalia í Tyrklandi. Rusl og sóðaskapur er víða í Reykjavík, svo sem gosdrykkjadósir, sígarettustubbar o.fl. og einnig mætti grassláttur og götusópun vera meiri í borginni.Tækifæri ættu að vera til staðar til að gera höfuðborgarsvæðið að einni af hreinustu höfuðborg í Evrópu og þó víðar væri leitað. Sveitarfélög nær og fjær ættu að setja sér stefnumótandi markmið í þeim tilgangi. Hreint land og borg er nauðsynlegur grundvöllur fyrir mögulegan sess Reykjavíkur sem með hreinustu höfuðborgum í Evrópu, sem gæti verið markmið. Ein af mörgum ranghugmyndum sumra landsmanna er að Ísland sé svo hreint, ekki síst þeirra sem ekki hafa mikið ferðast erlendis.
3. Afþreying, menning og skemmtanir – Afþreyingarmöguleikar eru margskonar á Íslandi og í Reykjavík. Hvalir og hestar skapa hér t.d. stóran sess og einnig ýmsar náttúru-, jeppa- og jöklaferðir að ógleymdum sundstöðum. Reykjavíkurborg státar einnig af mörgum og merkilegum menningarstofnunum og söfnum og það sama á við víða á landsbyggðinni. Borgin hefur líka skapað sér sess sem góð skemmtana og næturlífsborg.
4. Gæði veitingastaða – Fyrsta flokks veitingastaðir eru í Reykjavík og á nokkrum stöðum á landsbyggðinni.Veitingastaðirnir standast samanburð við hvaða land sem er. Flesta þeirra er að finna á vefsíðu okkar veitingastadir.is. Margt bendir til að ákveðin offjárfesting sé þó í atvinnugreininni, og enn stefnir í frekari hótelbyggingar á næstu árum þó ekki verði því gerð skil að þessu sinni. Einnig eru kennitöluskipti meðal sumra aðila í ferðaþjónustu mjög bagaleg og ill ásættanlegt að viðskiptaráðherra muni ekki klára slíkt frumvarp á þessu þingi eins og til stóð.

Ýmis tækifæri eru til staðar þannig að landið og borgin geti markað sér stöðu sem staðir hreinleika, með mikla sérstöðu á heimsvísu. Þörf er á meiri langtímastefnumótun á mörgum sviðum og gera þarf miklar úrbætur varðandi ýmsa innviði, aðgengi, landvörslu, salernismál, skipulag, skiltamerkingar og samgöngur. Slíkt væri gott innra markmið fyrir ríki, sveitarfélög og einkaaðila árin 2014-15, enda þörf á mikilli bragarbót varðandi ofangreint. Það að styrkja innviði og skipulag, setja markmið o.fl. ætti að vera forgangsatriði ekki síst þar sem núna í ár mun heildarfjöldi ferðamanna án nokkurs vafa fara yfir eina milljón. Á sama tíma og úrbætur vantar á ofangreindu og fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu þarf að flytja inn starfsfólk, skýtur skökku við að fjöldi ungs fólks sé án atvinnu. Þetta þarf að skilgreina sem verkefni ekki vandamál og ganga í verkið. Eitt verkefnið gæti verið að hreinsa strandlengjuna í kringum Ísland. Mín tillaga er að ungt fólk á aldrinum 20-45 ára af atvinnuleysisskrá gæti komið að þessu þjóðþrifaverkefni. Við það tel ég einnig líklegt að minnki á atvinnuleysisskrá.  Á mánuðunum maí til júní væri hægt að afkasta miklu í stað þess að tala um þetta endalaust. Að minnsta kosti að klára strandlengjuna og Reykjavíkurborgarhreinsun. Hrein borg fögur torg, viljinn er allt sem þarf. ////

Höfundur er framkvæmdastjóri, ráðgjafi, fyrrum verkstjóri, vinnumaður í sveit o.fl.

Leave a ReplyYour email is safe with us.